Æðahnútar og þrýstingssokkar

Hvað eru æðahnútar?

Æðahnútar eru mjög algengt vandamál, sérstaklega hjá konum. Það er áætlað að um 30-40% óléttra kvenna og um 50% fólks yfir fertugu þrói með sér bláæðahnúta yfir ævina. Í langflestum tilfellum koma bláæðahnútar á fætur og fótleggi en þeir geta myndast hvar sem er. Ástæða þess er sú að þegar við stöndum og göngum eykst þrýstingur í bláæðunum í neðri hluta líkamans.

Fyrir mörgum eru æðahnútar bara útlitsvandamál. Hjá öðrum eru þeir mun alvarlegra vandamál og valda þá bæði sársauka og óþægindum. Enn alvarlegra er að þeir geta verið vísbending um hættu á alvarlegri blóðrásartruflunum.

Eftirfarandi einkenni geta verið merki um æðahnúta:

 • Eymsli eða þungatilfinning, jafnvel sviðatilfinning, í fótleggjum og vöðvakrampar í neðri hluta fótleggja. Þessi einkenni eiga það til að versna í standandi stöðu eða setu
 • Kláði og óþægindi við eina eða fleiri bláæðar
 • Húðsár við ökklann sem gefur til kynna alvarlegan æðasjúkdóm og krefst tafarlausrar læknisskoðunar
 • Sjáanlegar útbungandi æðar

Hvernig myndast æðahnútar?

Slagæðar flytja blóð frá hjartanu til allra vefja líkamans en bláæðar flytja blóðið til baka frá vefjunum til hjartans. Bláæðar eru bláar að sjá á yfirborði húðarinnar vegna þess að þær innihalda súrefnissnautt blóð. Til þess að koma blóðinu aftur til hjartans þurfa bláæðarnar í fótleggjunum að vinna á móti þyngdaraflinu.

Samdráttur vöðva í neðri hluta fótleggja virkar eins og vöðvadæla og þrýstir blóðinu áfram í bláæðunum innan fjaðurmagnaðra veggja þeirra. Við þrýstinginn opnast örfínar æðalokur innan í æðunum en lokast aftur þegar blóð leitar niður aftur og koma þannig í veg fyrir bakflæði þess. Æðahnútar myndast þegar þessi starfsemi truflast. Með hækkandi aldri geta æðaveggir misst fjaðurmagn sitt þannig að þeir verða slappir og gefa eftir í stað þess að hrökkva til baka eftir að hafa þanist út. Afleiðingin getur orðið sú að í stað þess að blóðið berist áfram í átt að hjartanu flæðir það til baka. Blóðpollar myndast þá í æðunum, þær stækka og verða að æðahnútum.

Af hverju koma æðahnútar á meðgöngu?

Fyrir kemur að konur fái æðahnúta á meðgöngutímanum. Ástæðan er sú að blóðmagn í líkama þeirra eykst á þessum tíma en um leið minnkar blóðflæði frá fótleggjum í átt að mjaðmagrind konunnar. Þessi breyting á blóðrásinni er til stuðnings vaxandi fóstrinu en hefur þá leiðinlegu aukaverkun að bláæðar í fótleggjum móðurinnar stækka. Einnig hafa hormónar á meðgöngunni áhrif á myndun æðahnúta, til dæmis eykur relaxín hormónið eftirgefanleika almennt í líkamanum sem hefur þá aukaverkun að veggir bláæða verða eftirgefanlegri og þar af leiðandi líklegri til að safna upp blóði og ná ekki að þrýsta blóðrásinni áfram upp.
Æðahnútar koma stundum upp á yfirborðið í fyrsta sinn eða versna seint á meðgöngunni. Þá þrýstir legið meira niður á bláæðakerfið sem tekur við af bláæðum í fótleggjum en áður. Það geta einnig þróast æðahnútar á skapabörmum og í leggöngum. Gyllinæð er sérstakt nafn yfir æðahnút í eða kringum endaþarmsopið.

Ath! Æðahnútar sem koma fram á meðgöngu skána yfirleitt af sjálfu sér innan þriggja mánaða frá fæðingu!

Hvað er hægt að gera?

Til eru ýmis ráð sem geta dregið úr óþægindum vegna æðahnúta og hindrað að ástand þeirra versni. Má þar nefna:

 • Líkamsrækt til að örva blóðflæði og vöðvavirkni í fótleggjum
 • Megrun ef um of þungan einstakling er að ræða
 • Forðast langar kyrrstöður eða –setur
 • Hvíla sig reglulega yfir daginn og setja fæturna upp með kodda undir þeim
 • Nota þrýstingssokka- og sokkabuxur
 • Forðast háa hæla
 • Borða hollt (forðast mikið salt, borða mikið af trefjum)


Hvernig hjálpa þrýstingssokkar og -sokkabuxur?

Gabrialla þrýstingssokkabuxur

Örva og styðja við heilbrigt blóðflæði með því að viðhalda þrýstingi á fætur og fótleggi. Þeir örva flæði í bláæðum og sogæðakerfi fótleggja og draga úr bjúgmyndun. Þrýstingurinn hjálpar bláæðunum að flytja blóð og kemur í veg fyrir að uppsöfnun blóðs eigi sér stað. Það er einnig mjög góð tilfinning og mikill léttir að fá þrýsting á bláæðahnúta sem eru búnir að myndast því það minnkar verki og óþægindi í þeim.
Hægt er að fá sokka sem ná upp að ökkla ef vandinn er eingöngu í fótum en einnig hægt að fá hnéháa og náraháa sokka. Einnig eru til þrýstingssokkabuxur sem hjálpa til ef vandinn er ofarlega í í lærum eða í mjaðmagrindinni.

Þrýstingssokkar og -sokkabuxur hjálpa líka fólki sem:

 • Vinnur mikið standandi eða þarf mikið að lyfta þungu í vinnunni.
 • Upplifir þreytu, verki eða bjúg í fótum
 • Er í áhættu á að þróa með sér æðavandamál
 • Er með mikla appelsínuhúð (cellulite)
 • Situr lengi á ferðalögum

Heimildir

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað eru æðahnútar? “ Vísindavefurinn, 24. febrúar 2005. Sótt 18. febrúar 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=4773.

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *